Viðskiptaráðuneytið hefur ákveðið að styrkja háskólastofnanir til rannsókna á áhrifum aukinnar notkunar erlendra mynta á vörumarkað, fjármálamarkað og samfélag á Íslandi almennt.

Þær stofnanir sem fá styrk frá ráðuneytinu eru Rannsóknastofnun í Fjármálum við Háskólann í Reykjavík, Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík, Evrópufræðasetur Háskólans á Bifröst og Rannsóknarsetur verslunarinnar við Háskólann á Bifröst.

Þetta kemur fram á vef Viðskiptaráðuneytisins.

Ennfremur er fyrirhugað að skoða áhrif mismunandi tenginga við evru á ofangreinda þætti.

Þá segir í frétt ráðuneytisins að meginspurningarnar séu tvær: 1. hvort á Íslandi sé að verða til fjölmyntasamfélag og hvaða áhrif það hefur á markaði og samfélag og 2. hvaða afleiðingar ólíkar tengingar við evru hafa á íslenskan fjármálamarkað og fjármálastöðugleika.

Fyrirhugað er að niðurstöður liggi fyrir í ágúst 2008 í formi skýrslna og/eða rannsóknaritgerða og verði kynntar opinberlega í kjölfarið.

Eftirfarandi eru umfjallanir um rannsóknarefnin og er efnið tekið beint af vef viðskiptaráðuneytisins.

Rannsóknasetur verslunarinnar: Áhrif fjölmyntasamfélagsins á vörumarkað

Tilgangur rannsóknarinnar er annars vegar að skýra að hve miklu leyti erlend mynt er notuð í verslun og á vörumarkaði hér á landi, hvaða erlendu gjaldmiðlar eru mest í umferð í versluninni og hvað hindrar að erlend mynt sé notuð hér við kaup á vörum og þjónustu. Hins vegar verður varpað ljósi á hversu víðtækar breytingar þyrftu að eiga sér stað á vörumarkaði til að taka upp annan gjaldmiðil hér á landi. Í lok rannsóknarinnar verður hægt að draga ályktun um þróun fjölmyntasamfélags á vörumarkaði til næstu ára.

Umsjónarmaður:  Emil B. Karlsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar

Rannsóknastofnun í fjármálum: Áhrif mismunandi tengingar við evru á fjármálamarkað og fjármálastöðugleika

Töluvert hefur verið fjallað um áhrif evruvæðingar á hagstjórn og er þá einkum litið til peningamála og áhrifa á hagsveiflur, verðlag og slíka þætti. Minna hefur verið fjallað um áhrif á fjármálastöðugleika, en rík ástæða er til að huga að þeim þætti. Alþjóðavæðing bankakerfisins hefur gert það að verkum að íslenskt fjármálakerfi er nú mun háðara sveiflum á alþjóðamarkaði en áður var. Verkefnið miðar að því að rannsaka áhrif upptöku eða tengingar við evru á íslenskan fjármálamarkað. Jafnframt verður kannað hver áhrifin verða á stöðugleika fjármálakerfisins. Eftirfarandi valkostir varðandi upptöku evru eða tengingu við hana verða skoðaðir:

  1. Einhliða tenging krónunnar við evru með vikmörkum. Þetta er sama fyrirkomulag og var við lýði áður en krónan var sett á flot og tekið upp verðbólgumarkmið árið 2001, nema hvað þá var miðað við myntkörfu fremur en eina mynt.
  2. Tenging krónunnar við evru með myntráði ( currency board ). Þetta þýðir að stjórnvöld skuldbinda sig til að skipta krónum í evrur á föstu gengi og viðhalda forða af evrum þannig að þetta sé tryggt.
  3. Einhliða upptaka evru. Þetta þýðir að krónunni er skipt út fyrir evru, þ.e. grunnfé Seðlabankans er skipt út fyrir evrur og evran tekin upp sem lögeyrir.
  4. Upptaka evru með tvíhliða samstarfi við Evrópska Seðlabankann eða aðild að Efnahags- og myntbandalaginu.

Umsjónarmaður:  Friðrik Már Baldursson, prófessor og forstöðumaður Rannsóknastofnunar í fjármálum við Háskólann í Reykjavík

Evrópufræðasetur: Er Ísland að verða fjölmyntasamfélag?

Rannsókn Evrópufræðaseturs miðar að því að skoða hvort og þá að hve miklu leyti evran eða aðrir erlendir gjaldmiðlar eru að ryðja sér til rúms á Íslandi. Í rannsókninni er skoðað að hve miklu leyti fyrirtæki sem eru skrásett á Íslandi eru farin að notast við evru eða aðra erlenda gjaldmiðla í starfsemi sinni. Sjónum er beint að vinnumarkaði auk samfélagslegra og stjórnmálalegra þátta. Til að mynda er spurt hvort það sé yfir höfuð hægt að innleiða erlenda gjaldmiðla sem lögeyri á Íslandi, annars vegar við hlið krónu og hins vegar í stað krónu. Einnig er spurt hvort Ísland sé að verða fjölmyntasamfélag og hvort  evran sé jafnvel að taka sig upp sjálf. Hvað verður þá um krónuna? Að lokum verður dreginn fram samanburður við önnur ríki og athugað hvernig erlendir gjaldmiðlar hafa rutt sér til rúms í öðrum löndum.

Umsjón: Eiríkur Bergmann Einarsson, forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst

Evrópuréttarstofnun HR: Lagalegir kostir á upptöku evru innan Evrópuréttar

Í rannsókninni verður lagaleg hlið þeirra kosta sem íslenskum stjórnvöldum stendur til boða við tengingu við eða upptöku evru. Kostir og gallar ólíkra leiða vera skoðaðir ítarlega. Eftirfarandi kostir verða skoðaðir: Aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu í kjölfar aðildar að Evrópusambandinu, aðild að myntbandalaginu án aðildar að Evrópusambandinu, tvíhliða samningur við Evrópusambandið um upptöku evru og einhliða upptaka ýmist með myntráði eða með svokallaðri ‘dollarization’. Einnig verður litið til áhrifa breytinga af þessu tagi á samningin um Evrópska efnahagssvæðið. Þó rannsóknin sé fyrst og fremst á sviði lögfræði, verður einnig tekið mið af efnahagslegum og stjórnmálalegum sjónarmiðum, enda ekki hægt að fjalla um evrópurétt úr samhengi við viðfangsefnið sjálft. Þetta á sérstaklega við í þessu tilfelli.

Umsjón: Peter Dyrberg, forstöðumaður Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík