Útflutningsráð Íslands fer fyrir viðskiptasendinefnd til Færeyja dagana 27.-29. maí. Er ferðin farin í tengslum við sjávarútvegssýninguna Fish Expo Faroe 2009 sem haldin er þessa sömu daga.

Að sögn talsmanna Útflutningsráðs er með þessari viðskiptasendinefnd er reynt að útvíkka sviðið í kringum ferðina á sjávarútvegssýninguna. Verða m.a. skipulagðir viðskiptafundir fyrir þátttakendur. Tækifæri eru fyrir íslensk fyrirtæki til samstarfs á hinum ýmsu sviðum atvinnugreina, bæði í framleiðslu og þjónustu.

Sjávarútvegssýningar í Færeyjum eru íslenskum fyrirtækjum vel kunnar og hafa ætíð verið vel sóttar. Sýningin nú kemur í stað North Atlantic Fish Fair sem síðast var haldin í Þórshöfn árið 2007, en um 300 fyrirtæki tóku þátt í þeirri sýningu en gestir voru á tólfta þúsund.