Útflutningsráð skipuleggur nú í samvinnu við sendiráð Íslands í Pretoríu viðskiptasendinefnd til Suður-Afríku dagana 24. febrúar til 2. mars 2007 næstkomandi. Viðskiptasendinefndin verður undir forystu Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra og farið verður til Jóhannesarborgar, Pretoríu og Höfðaborgar segir í frétt Útflutningsráðs.

Þar kemur fram að sérstök áhersla verður á ferðaþjónustu, upplýsingatækni, fjárfestingar, matvælaiðnað og sjávarútveg. S-Afríka er einn af stærstu mörkuðum heims með 47.6 miljón íbúa og margvísleg og mikil viðskiptatækifæri. Hagvöxtur í landinu er í dag um 4,5% og mun skamkvæmt spám EIU.com fara jafnt og þétt vaxandi næstu ár.

Framkvæmdir í tengslum við lokakeppni HM í knattspyrnu sem haldin verður í S-Afríku 2010 verða gríðarmiklar. Ríkisstjórn S-Afríku hefur ákveðið að verja 151 milljarði íslenskra króna til uppbyggingar og verkefna tengdu lokakeppninni og Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA mun leggja meira fé til keppninnar en nokkurrar lokakeppni hingað til.

S-Afríka hækkar jafnt og þétt á listum yfir viðskiptaumhverfi. Má nefna að S-Afríka er í 29. sæti á heimslista Alþjóðabankans, einu sæti á undan Austurríki. Ísland er í 12. sæti á sama lista og Singapore í því efsta. Önnur Afríkuríki sækja einnig ört í sig veðrið á þessu sviði.

S-Afríkubúar ferðast nú í síauknum mæli um heiminn, ekki síst hin ört vaxandi millistétt. Ísland er enn að mörgu leyti ónumið land fyrir ferðamenn frá S-Afríku og því eftir miklu að slægjast.

Mikil áhersla er lögð á að laða að erlenda fjárfesta og er fjárfestingaumhverfið í S-Afríku gott á heimsvísu.

Íslensk fyrirtæki í matvælaiðnaði, sjávarútvegi og tengdum atvinnugreinum eiga fullt erindi í ferðina. Ef áhugi fyrirtækja er fyrir hendi mun Útflutningsráð taka þátt í FISH AFRICA, sjávarútvegssýningu sem haldin verður í lok október 2007. Þátttaka í viðskiptasendinefndinni í febrúar gæti verið mjög góður undirbúningur fyrir þau fyrirtæki sem hyggja á þátttöku í sjávarútvegssýningunni í október segir í frétt Útflutningsráðs.