Stefán Einar Stefánsson, viðskiptasiðfræðingur sagði sig í dag úr stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS).

Í yfirlýsingu frá Stefáni Einari kemur fram að Geir H. Haarde, þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hafi brugðist stuðningsmönnum flokksins með því að samþykkja fjárstyrki frá tveimur fyrirtækjum nokkrum dögum áður en lög, sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi átt hlut í því að samþykkja ásamt öðrum flokkum, þar sem kveðið er á um að styrkir fyrirtækja til stjórnmálaflokka mættu ekki nema hærri upphæð en 300.000 kr. á ári.

Þá segir Stefán Einar ályktun SUS frá því í dag, þar sem lof er borið á framgöngu fyrrverandi formannsins fyrir það að „axla ábyrgð á óvenjulega háum fjárframlögum frá FL-Group og Landsbankanum,“ eins og það er orðað í ályktun SUS, dæmalausa og úr takt við raunveruleikanum.

Yfirlýsing Stefáns er svohljóðandi:

„Afsögn úr stjórn SUS

Í árslok 2006 brást Geir H. Haarde, þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, stuðningsmönnum hans og flokksfélögum sínum, er hann veitti viðtöku fjárstyrk frá tveimur fyrirtækjum sem eru úr öllum takti og út yfir öll velsæmismörk, hvernig sem á það mál er litið. Þar vó hann að trúverðugleika flokksins og sjálfstæði.

Skömmu eftir að formaður flokksins veitti þessum upphæðum viðtöku stóð flokkur hans ásamt öllum öðrum flokkum sem sæti eiga á Alþingi að því að samþykkja lög er kváðu á um að styrkir fyrirtækja til stjórnmálaflokka mættu ekki nema hærri upphæð en 300.000 kr. á ári. Sú upphæð sem formaður flokksins tók við var hundraðfalt þetta hámark.

Ef hugur fylgdi máli og lögunum ætlað að tryggja sjálfstæði stjórnmálaflokka gagnvart viðskiptalífinu og fjársterkum einstaklingum, fól viðtaka styrkjanna í sér aðför að því markmiði. Er hætt við því að fégjafir þessar, ekki síst í ljósi þess hvenær þær voru reiddar af hendi, verði álitnar tilraun til þess að hafa óeðlileg áhrif á stefnu, skoðanir eða ákvarðanir þess aðila sem við þeim tók.

Nú hefur stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem undirritaður hefur átt sæti í á undangengnum árum, lýst þeirri skoðun sinni að lofa beri framgöngu fyrrum formanns flokksins fyrir það sem hún kallar í ályktun sinni að „axla ábyrgð á óvenjulega háum fjárframlögum frá FL-Group og Landsbankanum." Er þessi dæmalausa ályktun úr takti við raunveruleikann, enda hefur fyrrum formaður flokksins í engu tilliti axlað ábyrgð á viðtöku styrkjanna, heldur aðeins viðurkennt að hafa tekið við þeim. Hefur hann í engu beðist afsökunar á þeirri ákvörðun sinni.

Þá hefur stjórnin einnig lýst fullu trausti í garð framkvæmdastjóra flokksins sem má teljast einkennilegt í ljósi þess að enn er málið óljóst og harla ólíklegt verður að teljast að framkvæmdastjórinn hafi ekki haft vitneskju um styrki af þessari stærðargráðu. Sé það raunin hefur hann ekki haft þá innsýn í starfsemi flokksins sem krefjast má af manni í hans stöðu.

Í ljósi þessarar ályktunar Sambandsins, sem samin var og samþykkt að frumkvæði formanns þess, hefur undirritaður ákveðið að segja sig úr stjórn þess. Engum ærlegum manni er sæmandi að leggja nafn sitt við spuna af þessu tagi enda ljóst að ábyrgð þeirra manna sem þar eru bornir lofi og trausti lýst á, bera mesta ábyrgð á þessu spillingarmáli sem lengi mun verða í minnum haft og standa sem minnisvarði um menn sem töpuðu áttum og um leið virðingunni fyrir sjálfum sér.

Stefán Einar Stefánsson Viðskiptasiðfræðingur“

Ályktun SUS frá því fyrr í dag er svohljóðandi:

„Aðrir flokkar fylgi fordæmi Sjálfstæðisflokksins

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur samþykkt eftirfarandi ályktun:

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna telur að það sé rétt ákvörðun hjá forystu Sjálfstæðisflokksins að gefa upplýsingar um öll óvenjulega há fjárframlög sem flokkurinn hefur þegið á undanförnum árum. Ákvörðunin stuðlar að því að endurvekja traust á stjórnmálaflokka.

Ungir sjálfstæðismenn skora ennfremur á aðra stjórnmálaflokka að gera sambærilegar upplýsingar opinberar fyrir kosningar.

Stjórn SUS lýsir ánægju með að Geir H. Haarde, fyrrum formaður, hafi axlað ábyrgð á því að taka við óvenjulega háum fjárframlögum frá FL Group og Landsbankanum. Slík ábyrgð er því miður óalgeng í íslenskum stjórnmálum. Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna lýsir fullu trausti á núverandi forystu Sjálfstæðisflokksins til þess að búa svo um hnúta að fjármál hans þurfi ekki að vera tilefni til tortryggni. Stjórn SUS lýsir einnig fullu trausti á framkvæmdastjóra flokksins.

Stjórn SUS telur að nú þegar fyrrverandi formaður hefur tekið ábyrgð á því að hafa samþykkt styrkina þá haldi Sjálfstæðisflokkurinn sínu striki, enda hefur hann ekkert að fela. Nú stendur það upp á aðra stjórnmálaflokka að fylgja fordæmi Sjálfstæðisflokksins.“