Actavis Group hf. hefur gert samning við Íslandsbanka hf. um viðskiptavakt á hlutabréfum útgefnum af félaginu og skráð eru í Kauphöll Íslands. Samningurinn tekur gildi frá og með 1. apríl. Tilgangur viðskiptavaktar er að efla viðskipti með hlutabréf félagsins í Kauphöll Íslands hf. Um leið og þessi samningur tekur gildi fellur samningur um viðskiptavakt niður við KB Banka hf.

Sem viðskiptavaki mun Íslandsbanki hf. setja daglega fram í eigin reikning kaup- og sölutilboð í hlutabréf Actavis Group hf. (ACT) að lágmarki 300.000 krónur á gengi sem Íslandsbanki hf. ákveður í hvert skipti. Hámarksmunur á kaup- og sölutilboðum skal ekki vera meiri en 1,5%. Frávik frá síðasta viðskiptaverði skal ekki vera meira en 3% þó þannig að heimilt sé að víkja frá því hámarki komi fram fréttir á markaði sem hafa veruleg áhrif á gengi félagsins. Hámarksfjárhæð heildarviðskipta dag hvern skal vera kr. 200.000.000,- að markaðsvirði.