Viðskiptavild 365 miðla jókst um rúmlega 4,4 milljarða króna á síðasta ári samkvæmt ársreikningi félagsins. Í lok árs 2009 námu óefnislegar eignir um 5,7 milljörðum króna eða um 69% af heildareignum félagsins.

Þetta kemur fram í ársreikningi 365 miðla sem skilað var til ársreikningaskrár 11. október síðastliðinn.

Stefán Hilmarsson, fjármálastjóri fjölmiðlasamsteypunnar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að ástæða hækkunar á óefnislegum eignum sé tvíþætt.

„Hækkunina má rekja til kaupa Rauðsólar á öllu hlutafé 365 miðla fyrir 5,9 milljarða króna,“ segir Stefán.

„Á þeim tíma var eigið fé 365 miðla um 1,1 milljarður króna og mismunur á kaupverði og eigin fé færður sem viðskiptavild. Síðan er það svo að þegar búið er að færa viðskiptavildina með þessum hætti til bókar þá þarf að gera virðisrýrnunarpróf sem Capacent sá um fyrir okkur. Niðurstaða prófsins var sú að virði óefnislegra eigna er um 9,4 milljarðar króna. Það er rúmlega 3 milljörðum krónum hærra en þær eru metnar á núna.“

Stefán segir að hækkun óefnislegra eigna megi því rekja til þeirra viðskipta sem áttu sér stað. „Það var raunverulegur kaupsamningur og raunverulegar greiðslur. Félagið var metið á 5,9 milljarða króna þó eigið fé hafi verið um 1,1 milljarður.

Því er undirliggjandi eign í félaginu, þ.e. sjóðstreymi til framtíðar sem er grunnurinn í virðisrýrnunarprófinu,“ segir Stefán. Hann segir kaupverðið mjög hátt en ljóst af virðisrýrnunarprófi að viðskiptavildin standi undir sér.

Skulda Landsbankanum tæpa fimm milljarða króna

Heildarskuldir 365 nema 7,6 milljörðum króna. Þar telur bankalán frá Nýja Landsbankanum mest, en bankinn lánaði Rauðsól rúmlega 4,8 milljarða króna. Það lán var síðan fært yfir til 365 þegar Rauðsól var sameinað félaginu. Lánið er á gjalddaga árið 2015.

Eignir 365 eru 8,4 milljarða króna virði samkvæmt ársreikningnum. Tæplega 70% þeirra eru óefnislegar eignir. Eigið fé félagsins er 773 milljónir króna eða rúmlega 10%.

Hluthafar 365 eru alls 25 talsins en einn þeirra, Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir, á 99,97% af hlutafénu. Ingibjörg er eiginkona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem var aðaleigandi 365 á undan henni.