Viðskiptavinir Credit Suisse gætu hafa tapað allt að 1 milljarði svissneskra franka (925,9 milljónum dollara) vegna fjárfestinga tengdum svikaranum Bernard Madoff, en fréttaveitan Reuters greinir frá þessu.

Talsmaður Credit Suisse, sem er annar stærsti banki Sviss, neitar þessu og segir: ,,Credit Suisse mælti ekki með eða seldi vörur tengdar Bernard Madoff. Ennfremur var enginn af vogunarsjóðunum sem Credit Suisse rekur með fjárfestingar í sjóðum Madoff."

Yfirvöld í Bandaríkjunum segja Madoff hafa játað að hafa staðið í 50 milljarða dollara svikamyllu sem hafi áhrif á fjárfesta og góðgerðasamtök um heim allan.

Sjóðir í stýringu hjá svissneskum bönkum eru meðal fórnarlamba Madoff, sem er ásakaður um að reka alþjóðlega Ponzi svikamyllu en hún byggir á þeirri hugmyndafræði að borga núverandi fjárfestum með peningum nýrra.