"Okkar verðskrá er í dag lægri en sú sem Orkuveita Húsavíkur (OH) hefur miðað við. Viðskiptavinir ættu því ekki að þurfa að finna fyrir neinum hækkunum," segir Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, um kaup fyrirtækisins og Orkusölunnar á raforkuhluta Orkuveitu Húsavíkur sem undirrituð voru í dag. Stjórnir félaganna eiga þó enn eftir að samþykkja söluna. Orkusalan er 100% í eigu RARIK og gegnir Tryggvi Þór stjórnarformennsku hjá Orkusölunni.

Með kaupunum yfirtaka RARIK og Orkusalan skuldbindingar Orkuveitu Húsavíkur er snúa að raforkuhluta hennar.  Viðskiptavinir Orkuveitu Húsavíkur verða frá og með 1. janúar 2010 viðskiptavinir RARIK og Orkusölunnar eins og aðrir íbúar sveitarfélagsins Norðurþings.  Á næstu vikum munu RARIK og Orkusalan kynna nánar starfsemi sína fyrir nýjum viðskiptavinum á Húsavík.

Tryggvi segir kaupverðið ekki gefið upp að svo stöddu. "Stjórnirnar eiga eftir að taka málið til umfjöllunar og fyrr er ekki hægt að  tjá sig um upphæðir í þessu samhengi," segir Tryggvi.

Samningaviðræður hafa staðið yfir milli RARIK og OH í nokkra mánuði en forsvarsmenn OH leituðu til RARIK. Eiginfjárstaða OH var neikvæð um síðustu áramót en gengisfall krónunnar hefur komið sér afar illa fyrir fyrirtækið, eins og svo mörg önnur hér á landi.