Sparnaðarleiðin Icesave, sem Landsbanki Íslands hóf að bjóða í Englandi 10. október síðastliðinn, hefur nú skilað inn 63.000 nýjum viðskiptavinum og 2,1 milljarði punda, eða á milli 270 og 280 milljörðum króna, í auknum innlánum.

Að sögn Sigurjóns Árnasonar, bankastjóra Landsbankans, hafa góðar viðtökur Icesave gerbreytt stöðu bankans og kallað á breytingu á lánauppbyggingu hans.

"Í augnablikinu erum við með þessu að endurskipuleggja fjármögnun á bankanum. Aðalgagnrýni á alla íslensku bankanna og þar með okkur var að það væri allt of lítið af innlánum af heildarfjármögnuni. En þegar það er komið í það form sem það er nú er það ekkert vandamál lengur þar sem við erum að gerbreyta lánauppbyggingu bankans. Þetta er búið að ganga gríðarlega vel og í raun miklu betur en nokkur þorði að vona. Þetta er búið að umbreyta öllum bankanum," sagði Sigurjón.

Sem dæmi um hraða þróun innlána má benda á að í upphafi árs voru 775 milljónir punda komnar inn á reikninginn en sú tala hefur þrefaldast síðan og er enn að fjölga hratt í hópi viðskiptavina. Sigurjón sagði að þetta kallaði á viðbrögð af hálfu bankans þegar innlánin færu að nálgast 1.000 milljarða króna, en þá yrði að skoða upp á nýtt ávöxtun þessara fjármuna. Sem stendur féllu þeir bara inn í fjármögnun bankans og drægju úr þörf fyrir skuldabréfaútgáfu.

Að sögn Sigurjóns hefur lausafjárstaða bankans batnað svo mikið að það hefur kallað á sérstök viðbrögð. Þannig hefur bankinn orðið að ráða fólk að starfsstöð hans í London, sem fyrst og fremst heldur utan um þetta aukna lausafé. Það kemur til viðbótar aukningu sem átti sér stað á síðasta ári þegar bankinn fjármagnaði sig fyrirfram.

"Það er orðin meiri vinna að halda utan um þetta en hingað til og við höfum verið að ráða inn fólk sem ber ábyrgð á því fyrir hönd bankans að ávaxta lausafé. Við höfum gert þetta frá Íslandi til þessa, en núna erum við að ráða fólkið inn í London vegna þess að þar erum við nær markaðinum og við erum að auka lausaféð í erlendri mynt."

Með Icesave býðst breskum viðskiptavinum að stofna reikning á netinu með 5,2% vöxtum. Icesave ábyrgist að vextirnir verði 0,25% yfir innlánavöxtum seðlabanka Englands þar til í október 2009, og að vextir verði til jafns við grunnvexti bankans í tvö ár eftir það. Skilyrði eru þó um að alltaf séu 250 pund á reikningnum og að lágmarksúttektarupphæð sé hundrað pund, en aðeins er hægt að framkvæma úttektir rafrænt yfir á annan reikning.