Í frétt Reuters segir að erlendir bankar streymi nú inn á innlánamarkað Bretlands og er talað um að á sama tíma og erlendir aðilar hafi verið að kaupa bresk fyrirtæki og fótboltafélög hafi erlendir bankar komið af stað þögulli byltingu á innlánamarkaði.

Ný eru yfir tíu bankar sem bjóða innlánavöru á kjörum sem veiti breskum bönkum verulega harða samkeppni, segir í fréttinni. Innlánavara Landsbankans, Icesave, sem kynnt var í október, er meðal þeirra sem talað er um í því samhengi. Icesave býður 5,45% vexti og er einfaldari í sniðum heldur en aðrar innlánavörur (e. easy-access market) og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru viðskiptavinir Icesave nú í kring um 25 þúsund.

Samkvæmt verðsamanburðarvefsíðunni www.moneysupermarket.com breyttist innlánamarkaður Bretlands verulegu við innkomu hollenska bankans ING árið 2003, sem náði strax miklum vinsældum, en býður þó ekki lengur upp á bestu kjörin.

Framkvæmdarstjóri síðunnar segir að nýju bankarnir auki verulega valmöguleika viðskiptavina, bjóði betri vaxtakjör og setji einnig aukinn þrýsting á aðila sem voru fyrir á markaðnum um að bæta kjör sín.