Í helgarviðtali Viðskiptablaðsins við Sigurjón Árnason, bankastjóra Landsbankans, kemur fram að viðskiptavinir breska innlánareikningsins Icesave eru orðnir 75.000 talsins. Bankinn er nú með 325 milljarða króna eða 2,5 milljarð punda inni á þessu innlánaformi.

Í viðtalinu bendir Sigurjón á að þetta sé meira en öll innlán Landsbankans á Íslandi sem búið er að safna upp í 120 ára sögu bankans. Þannig sé viðskiptavinafjöldi Icesave búinn að ná þeim fjölda sem bankinn hefur náð hérlendis frá stofnun.

Í viðtalinu kemur fram að Landsbankinn sé að skoða að fara með þetta innlánaform til fleiri landa.