Þeir fjögur þúsund innistæðueigendur sem áttu sparifé á reikningum Kaupthings Singer & Friedlander á eyjunni Mön og hafa ekki ennþá fengið þær endurgreiddar, munu þurfa að bíða í allt að átta ár eftir því að fá sparifé sitt endurgreitt.

Frá þessu er greint á vef Telegraph. Þrotabú bankans er nú í umsjón endurskoðunarfyrirtækisins PricewaterhouseCooper en samkvæmt áætlun sem fyrirtækið gaf út nú rétt fyrir jól er ekki gert ráð fyrir að endurgreiða innistæðueigendum fyrr en árið 2017.

Þá er jafnframt gert ráð fyrir að aðeins 80% af innistæðum verði endurgreiddar, þ.e. að innistæðueigendur fái 80% af fjármagni sínu til baka.

Stjórnvöld á Mön greiddu nýlega út allar innistæður sem voru undir 50 þúsund Sterlingspundum en samkvæmt vef Telegraph er það um 75% allra þeirra sem áttu innistæður hjá bankanum. Þeir sem áttu hærri innistæður en sem því nemur þurfa sem fyrr segir að bíða í átta ár.