Fjármálaeftirlitið hefur í dag gripið inn í rekstur Spron og Sparisjóðabankans. Fyrirtækin hafa starfað á undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu og með lausafjárfyrirgreiðslu frá Seðlabankanum. Fyrirtækin hafa átt í viðræðum við lánardrottna um endurgreiðslu skulda. Lausafjárstaða fyrirtækjanna hefur haldið áfram að versna og því var gripið inn í reksturinn. Þetta kom fram í máli Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra á blaðamannafundi rétt í þessu. Í máli hans kom einnig fram að viðskiptavinir Spron fái framvegis þjónustu í Nýja Kaupþingi.

Gylfi sagði að hann hefði gjarna viljað sjá þessa sögu enda öðruvísi. Þetta séu erfiðar fréttir, ekki síst fyrir starfsmenn, en ekki hafi verið hægt að bjarga Spron og Sparisjóðabankanum. Einhverjir starfsmenn færist yfir í Nýja Kaupþing.