Tíu mánuðum eftir að bandarísk og suður-kóresk stjórnvöld hófu viðræður um gerð fríverslunarsamnings milli ríkjanna náðist samkomulag á elleftu stundu í gær. Síðasta lota samningaviðræðnanna stóð yfir í átta daga samfellt, stundum yfir heilu næturnar. Það var Bandaríkjastjórn nauðsynlegt að ná endanlegu samkomulagi 90 dögum fyrir 1. júlí næstkomandi en þá mun umboð George Bush forseta til að gera fríverslunarsamninga án aðkomu þingsins renna út. Forseta Bandaríkjanna er skylt að láta meirihluta demókrata á Bandaríkjaþingi vita með þriggja mánaða fyrirvara áður en hægt er að leggja slíkan samning í atkvæðagreiðslu fyrir þingið.

Helsti ásteytingarsteinnin í viðræðunum varðaði atvinnugreinar eins og nautakjötsframleiðslu, hrísgrjónarækt, bíla- og lyfjaiðnaðinn. Samkomulag náðist í öllum þessum efnum, fyrir utan hrísgrjón, en ekkert er minnst á þau í samningnum og var það gert að kröfu suður-kóreskra ráðamanna. Aftur á móti féllust stjórnvöld í Seúl á að hefja aftur innflutning á bandarísku nautakjöti en Suður-Kórea ákvað að banna innflutning á því eftir að kúariða greindist í nautgripum í Bandaríkjunum árið 2003. Auk þess verða tollar afnumdir á minni tegundir fólksbíla þegar í stað, en á stærri gerðir bifreiða verða tollarnir afnumdir smám saman á næstu þremur til tíu árum.

Samningurinn er sá stærsti sem Bandaríkin hafa gert síðan þau samþykktu NAFTA fríverslunarsamkomulagið árið 1993 (við Kanada og Mexíkó). Það er talið að tvíhliða viðskipti landanna - sem voru um 75 milljarðar Bandaríkjadala á síðasta ári - muni aukast um 20 milljarða dollara á ári með gerð samkomulagsins. Karan Bhatia, aðstoðarviðskiptafulltrúi Bandaríkjanna, sagði í samtali við breska blaðið Financial Times í gær að með samkomulaginu yrði 90% af öllum innflutningstollum ríkjanna útrýmt innan þriggja ára og stærstur hluti þeirra tolla yrði jafnframt afnumin þegar í stað.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.