Icelandair Group Holding var skráð í Kauphöll Íslands í morgun og er þar með fyrsta íslenska félagið til að skrá bréf sín í Kauphöllina eftir að hún varð hluti af norrænu kauphöllinni OMX.

Viðskipti hófust með Icelandair strax við skráningu í  morgun. Útboðsgengið var 27 krónur á hlut en fór fljótt upp í 28 krónur. Gengið stendur í 27,70 þegar þetta er ritað.

Jón Karl Ólafsson forstjóri Icelandair var hæstánægður með fyrstu viðbrögð í Kauphöllinni í morgun. "Þetta er rétt að byrja en gaman að sjá að fyrstu viðbrögð markaðarins eru góð. Við höfum lengi stefnt að þessari skráningu þannig að þetta er stór stund fyrir félagið og við erum full tilhlökkunar fyrir að efla enn frekar vöxt Icelandair og vinna fyrir hluthafanna," sagði Jón Karl.

Icelandair sem áður var í eigu FL Group var fyrr í haust selt nýjum kjölfestufjárfestum, starfsmönnum og almenningi og er nú aftur komið á markað í afar svipaðri mynd og fyrirrennari þess,  Flugleiðir hf. sem var skráð í Kauphöllina árið 1992. Saga Icelandair nær þó mun lengra en félagið fagnar 70 ára afmæli á næsta ár. Icelandair Group er því eitt elsta félagið í Kauphöll Íslands þrátt fyrir að vera jafnframt nýjasti kauphallaraðilinn.