Sala sænska húsgagnarisans Ikea jókst um 7% á síðasta fjárhagsári félagsins en þrátt fyrir það segir framkvæmdastjóri félagsins niðursveiflu í efnahagslífinu koma niður á félaginu.

Ikea seldi vörur fyrir 21,2 milljarða evra (2.730 milljarða íslenskra króna) á reikningsárinu sem lauk 31. ágúst. Sala á sama tímabili ári áður var 19,8 milljarðar evra.

Söluaukningin milli ára núna var helmingi minni en milli 2006 og 2007, og kennir framkvæmdastjóri Ikea, Anders Dahlvig, niðursveiflu í efnahagslífi þar um.

16% af sölu Ikea var í Þýskalandi, 10% í Bandaríkjunum og 9% í Bretlandi og Frakklandi. Dahlvig neitaði að upplýsa um hversu mikill hagnaður Ikea hefði verið á reikningsárinu.

BBC greindi frá þessu.