Skuld bókabúð er fyrsta verslunin á Íslandi sem sérhæfir sig í sölu viðskiptabóka og bóka tengdra hinum ýmsu hliðum viðskiptalífsins.

„Við verðum með bækur og annað efni sem tengist viðskiptum, fyrirtækjum og markaðsmálum í víðu samhengi,“ segir Dögg Hjaltalín eigandi bókabúðarinnar. Þó Skuld sé aðallega bókabúð þá kennir þar ýmissa grasa. Í búðinni má t.d. finna kvikmyndir og tónlist sem tengjast viðskiptum á einn eða annan hátt.

Dögg hefur víða rekist á bækur um viðskipti og tengt efni m.a. á ferðum sínum erlendis. „Það vantaði eitthvað af þessu tagi hér á landi,“ segir Dögg og bætir við að viðskipti snúist jú um fólk og því ættu margir að hafa gaman af einhverju þarna.

Bækurnar eru flestar erlendar og fjalla m.a. um þekkt fólk og fyrirtæki sem hafa notið velgengni í viðskiptum. „Við erum ekki með mikið af hörðum fræðibókum, þó þær fái nú alveg að fljóta með,“ segir Dögg.

Dögg segir að hugmyndin að búðinni sé ekki svo gömul. Aðeins nokkurra mánaða, hún hafi bara ákveðið að slá til þegar tækifæri gafst. Aðspurð kveðst Dögg þó ekki ætla út í eigin útgáfu. Skuld bókabúð tekur til starfa nú um helgina, en verslunin er við Laugaveg 51.