Viðskipti með hlutabréf króatíska samheitalyfjafyrirtækisins Pliva hafa verið stöðvuð í kauphöllinni í Zagreb og búast markaðsaðilar við birtingu formlegs kauptilboðs frá íslenska samheitalyfjafélaginu Actavis.

Stjórn Pliva hefur mælt með kauptilboði bandaríska lyfjafyrirtækisins Barr Pharmaceuticals, sem hljóðar upp á 743 króatískar kúnur á hlut. Óformlegt kauptilboð Actavis nemur 723 kúnum á hlut og búast sérfræðingar við að formlegt kauptilboð verði hærra.

Gengi hlutabréfa Pliva í Zagreb endaði í 780 kúnum á hlut í gær.