Viðskiptum með hlutabréf í Sílikondals-félögum sem enn eru í einkaeigu og ekki skráð á hlutabréfamarkað, líkt og Facebook, Twitter og LinkedIn, hefur fjölgað mikið á síðustu mánuðum. Á vef Wall Street Journal segir að aukningin bendi til að áhugi á tæknifyrirtækjunum sé mikill þrátt fyrir að enginn opinn markaður sé til staðar þar sem hægt er að versla með hlutabréfin.

Til eru hlutabréf í félögunum þrátt fyrir að þau eru ekki á markaði og algengt að starfsmenn eða fjárfestar vilji selja hlutabréfa sín fyrir lausafé. Segir í frétt WSJ að kaupendur og seljendur geti annað hvort komið sér saman milliliðalaust eða á mörkuðum sem ætlað er að koma þeim saman og hefur fjölgað hratt á síðustu misserum.

Svo virðist sem mikill áhugi sé til staðar á þeim félögum sem mögulega munu fara á markað á næstu árum. Aukinn velta með hlutabréf í félögunum veldur þó fjárfestum og forsvarsmönnum félaganna nokkrum áhyggjum þar sem fylgja þarf lögum og reglum. Að auki þarf að halda væntingum á markaði í jafnvægi, en upplýsingar um félög sem ekki eru skráð á markað eru mun takmarkaðri en þeirra sem þar eru.

Virði Facebook hefur aukist gríðarlega á síðustu mánuðum ef marka má viðskipti sem hafa verið gerð með hlutabréf í félaginu. Í nóvember seldi félagið Accel Partners minna en 15% hlut í Facebbok fyrir um 517 milljónir dala. Samkvæmt þeim viðskiptum er verðmiði á allt hlutafé Facebook um 35 milljarðar dala.

Síðan þá hefur virði Facebook hækkað um 25% samkvæmt þeim viðskiptum sem gerð hafa verið og er metið á yfir 56 milljarða dala.