Slitabúi Þú Blásól ehf. var lokað á síðastliðinn mánudag. Félagið var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Engar eignir fundust í búinu. Lýstar kröfur námu rúmum 102 milljónum króna og fékkst ekkert greitt upp í þær. Búið var tekið til gjaldþrotaskipta í maí á þessu ári.

Blásól er plöntutegund – fjölær jurt sem ber latneska heitið Meconopsis betonicifolia. Króna blómsins er heiðblá.

Félagið Þú Blásól ehf. var meðal annars til rannsóknar í hinu svokallaða Aurum Holding-máli, en einkahlutafélagið Fons sem var í eigu Pálma Haraldssonar hafði veitt Blásól lán sem hljóðaði upp á einn milljarð króna.

Milljarður á tékkareikning

Milljarðurinn sem um ræðir er einn þeirra sex sem Glitnir veitti Fons lán fyrir. Glitnir veitti fyrirtækinu FS38 ehf. sex milljarða króna lán í júlí 2008 til að kaupa 25,7% hlut Fons í Aurum Holding Limited.

Að viðskiptunum loknum veitti Fons ehf. svo Þú Blásól ehf. lán upp á milljarð króna. Féð var meðal annars notað til að fjármagna kaup Blásólar á hlut í enska formúlukappakstursliðinu Williams.

Þú Blásól var skráður skuldunautur í bókhaldi Fons ehf., sem var í eigu Pálma Haraldssonar. Þrotabú Fons neyddist svo síðar til að afskrifa heilan milljarð sem hafði verið lánaður til Blásólar. Skiptastjóri búsins taldi að um gjafagerning væri að ræða.

Jón Ásgeir átti svo einnig annað fyrirtæki sem bar nafnið Rauðsól ehf., en það notaði hann til að kaupa út fjölmiðlahluta Íslenskrar afþreyingar árið 2009, þegar það fór í gjaldþrotaskipti. Rauðsól var svo síðar yfirtekið af 365 miðlum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .