Hagnaður Spalar ehf. nam 12,2 milljónum króna á fjárhagsári fyrirtækisins 2005-2006, samanborið 2,3 milljóna krónu tap á sama tímabili árinu áður, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Spölur ehf er að fullu í eigu Eignarhaldsfélagsins Spalar hf. og er reikningsár þess 1. október til 30. september ár hvert.

Veggjald ársins nam 995 milljónum króna á tímabilinu, samanborið við 986 milljónir króna árinu áður, en það er um 1% hækkun.

Skuldir Spalar lækkuðu úr 4.8 milljörðum króna niður í 4.66 milljarða króna á tímabilinu, eða um 3%.

Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Spalar ehf, segir heildarafkomu félagsins í takt við áætlanir félagsins.

Á tímabilinu fóru um 1.828 þúsund ökutæki um göngin sem greiddu veggjald, sem er um 12% aukning frá sama tímabili árið áður. Þessi fjöldi samsvarar því að um fimm þúsund ökutæki hafi farið um göngin að meðaltali dag hvern.

Meðaltekjur fyrir hverja ferð um göngin fara lækkandi, bæði að nafnverði og raunvirði. Skýringin er einkum sú að fleiri og fleiri viðskiptavinir nýta sér afsláttarmöguleika, segir í tilkynningunni.