Breskum bönkum verður heimilt að fá lánað allt að tíu milljarða punda frá Englandsbanka í þrjá mánuði, meðal annars með fasteignaveð sem tryggingu. Þetta kom fram í óvæntri tilkynningu sem Englandsbanki sendi frá sér í gær. Hingað til hefur Mervyn King, seðlabankastjóri Englandsbanka, ítrekað haldið því fram að slík aðgerð myndi jafngilda því að bjarga bönkum frá gjaldþroti sem hefðu stundað áhættusamar lánveitingar. Það yrði einungis til þess að "sá fræum fyrir fjármálakreppur framtíðarinnar" þar sem markaðir myndu halda áfram að vanmeta áhættu og kasta af sér siðlægri gætni (e. moral hazard) í starfemi sinni.

Í frétt Financial Times segir að Englandsbanki hafi vitaskuld ávallt haldið þeim möguleika opnum að á einhverjum tímapunkti yrði nauðsynlegt að veita bönkum slíkt neyðarlán. Hins vegar sagði King í bréfi sem hann skrifaði til breska þingsins í síðustu viku að mjög sérstakar kringumstæður þyrftu að ríkja á mörkuðum til að réttlæta slíkar aðgerðir.

Ákvörðun Englandsbanka sýnir, að þrátt fyrir tímabundna uppsveiflu á hlutabréfamörkuðum í kjölfar vaxtalækkunar bandaríska seðlabankans, þá telja seðlabankayfirvöld á Bretlandi að enn ríki mikil óvissa og óróleiki á peninga- og fjármagnsmörkuðum um þessar mundir. Af þeim sökum hafi verið nauðsynlegt að grípa til þessara ráðstafana, enda þótt King hafi með öllu móti viljað forðast að til þessa neyðarúrræðis myndi koma.

Í tilkynningu bankans segir að ákvörðunin hafi verið tekin til að draga úr þeim mikla vaxtamun sem er á skammtímalánum á millibankamarkaði í London (LIBOR) og sjálfum stýrivöxtum Englandsbanka. Það bar tilætlaðan árangur og þegar markaðir lokuðu í gær stóðu LIBOR-vextir á pundi til þriggja mánaða í 6,55% og höfðu lækkað úr 6,75%.

Fjármálaskýrendur telja að með þessari stefnubreytingu hafi staða og trúverðugleiki King veikst til muna í ljósi þess hversu gagnrýninn hann hafi verið í garð sambærilegra aðgerða. Til þess að verja ákvörðun sína þarf hann líkast til að bera fyrir sig þær röksemdir að aðstæður á markaði hafi breyst mjög fljótt til hins verra á undanförnum tveimur vikum - eitthvað sem erfitt hafi verið að spá fyrir um.

Það er hins vegar mjög sennilegt að margir bankar - ekki síst Northern Rock - og stjórnmálamenn eiga eftir að gagnrýna King fyrir að hafa ekki brugðist við fyrr, en hefði Englandsbanki boðið upp á þennan möguleika fyrir viku síðan er líklegt að hægt hefði verið að koma í veg fyrir vandræði Northern Rock, sem einkum hefur sérhæft sig í húsnæðislánum, en gengi bréfa í bankanum lækkaði um 16% í gær.