Afkoma SAS flugfélagsins á fjórða ársfjórðungi nýliðins árs var mun betri en greinendur í Skandinavíu gerðu ráð fyrir, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Gríðarlegur viðsnúningur var á tímabilinu. Hagnaður fjórðungsins nam 1,6 milljarði, en á sama tíma fyrir ári tapaði félagið 5,1 milljarði.

Arðsemi eiginfjár nam 1% á árinu, sem er ekki ásættanlegt að mati greiningaraðila. Aftur á móti hefur verið talsverður viðsnúningur á aðseminni, þar sem félagið skilaði neikvæðri arðsemi upp á 15% árið 2004 og árið 2003 var hún neikvæð um 12%.

Sætanýting SAS jókst á fjórðungnum en hún var 67%. Á sama tíma fyrir ári var hún 60%. Yfir árið í heild var sætanýtingin 67%.

Greiningardeildin tekur til samanburðar sætanýtingu Icelandair árið 2005 sem var 78% og segir það sé gott í alþjóðlegum samanburði.