Hagnaður Smáralindar ehf. nam 735 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við tap sem nam 316 milljónum króna á sama tíma fyrir ári. Bætta afkomu má meðal annars rekja til hagnaðar af sölu fasteigna og lóða sem nam 913 milljónum króna en sama tímabili fyrir ári naut þess ekki við.

Ennfremur námu hreinar fjármunatekjur 17 milljónum króna á tímabilinu en voru fjármagnskostnaður sem nam einum milljarði króna fyrir á sama tíma fyrir ári.

Tekjur félagsins jukust á tímabilinu í 721 milljón króna úr 654 milljónum króna og rekstrarhagnaður jókst í 356 milljónir króna úr 338 milljónum. Matsbreyting fjárfestingaeignar var neikvæð á tímabilinu upp á 390 milljónir króna en á sama tíma fyrir ári var þessi liður jákvæður upp á 362 milljónir króna.

Langtímaskuldir lækkuðu um 1,1 milljarð króna og námu átta milljörðum króna við lok tímabilsins. Skammtímaskuldir lækkuðu um 81 milljón króna og voru 460 milljónir króna.

Eignir félagsins lækkuðu í 14,8 milljarða króna úr 15,2 á sama tíma fyrir ári. Eigið fé félagsins í lok tímabilsins var 6,3 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall félagsins 55 % að teknu tilliti til víkjandi láns frá móðurfélaginu.