„Við erum mjög ánægð með afkomu fyrsta ársfjórðungs. Árið byrjaði vel hjá Marel," er haft eftir Theo Hoen forstjóra Marel í tilkynningu um afkomu félagsins á fyrsta ársfjórðungi 2010. Hagnaður Marel eftir skatta var 5,6 milljónir evra samanborið við 7 milljón evra tap á sama tímabili í fyrra.

Tekjur af kjarnastarfsemi Marel námu 129 milljónum evra, sem er 15% aukning samanborið við ársfjórðunginn á undan og 25% aukning miðað við sama tímabil fyrir ári. Fyrirtækið náði langtíma markmiði sínu um  10-12% rekstrarhagnað (EBIT) af veltu. Nam rekstrarhagnaðurinn tæpum 16 milljónum evra.

Í fréttatilkynningu er þetta haft eftir Theo Hoen forstjóra: „Markaðsaðstæður eru að batna og tekjur hafa enn á ný aukist í samanburði við ársfjórðunginn á undan. Pantanabókin hefur styrkst og var fjöldi nýrra pantana hærri en fjöldi afgreiddra pantana fimmta ársfjórðunginn í röð. Við skilum nú meiri hagnaði og sterkara sjóðstreymi þökk sé þeim aðgerðum sem við höfum gripið til til að hagræða og skerpa á rekstri félagsins.

Samþætting Marel og Stork er farin að skila sér. Samþætting dreifikerfanna gengur samkvæmt áætlun og við erum komin með stöðugt framboð nýrra samþættaðra vara sem eru viðskiptavinum okkar mjög til hagsbóta og til þess fallin að styrkja markaðsstöðu fyrirtækisins. Í ljósi þess árangurs sem við höfum þegar náð horfi ég björtum augum til framtíðarinnar, ekki bara út þetta ár heldur einnig til lengri tíma litið.“