Í Morgunkorni Glitnis í morgun kemur fram nokkur viðsnúningur hefur orðið á hlutabréfamarkaðinum hér á landi í apríl. Hlutabréf hafa hækkað í verði um tæp 5% frá því í upphafi mánaðar eftir nánast samfellda lækkun frá upphafi árs.

Þá segir í Morgunkorni að skuldatryggingarálag bankanna og íslenska ríkisins hefur einnig lækkað mikið frá upphafi mánaðar. Álag á skuldatryggingar Landsbankans er nú komið niður í 400 punkta og álag Glitnis og Kaupþings stendur í 550 punktum. Þá var álag íslenska ríkisins komið niður í 250 punkta í morgun.

Greining Glitnis segir að þrátt fyrir að farið sé að sjást til sólar á innlendum mörkuðum undanfarnar vikur er enn of snemmt að setja punktinn aftan við þann kafla sem hófst síðastliðið sumar með lausafjárkrísunni.

„Við gerum ráð fyrir áframhaldandi erfiðum ytri aðstæðum á fjármálamörkuðum næstu mánuði. Hlutabréfamarkaðir hafa verið sveiflukenndir undanfarið sem endurspeglar áhættufælni og ótta fjárfesta. Við gerum hinsvegar ráð fyrir að markaðir fari almennt að rétta úr kútnum á seinnihluta ársins þótt erfitt sé að tímasetja hvenær það verður, enda undirliggjandi óvissa enn mjög mikil. Þróun íslenska hlutabréfamarkaðarins mun að okkar dómi áfram sveiflast með alþjóðamörkuðum en einnig mun þróun gengis krónunnar sem og möguleikar bankanna til fjármögnunar hafa áhrif,“ segir í Morgunkorni.