Samkvæmt helstu niðurstöðum átta mánaðar uppgjörs Fjarðarbyggðar nema rekstrartekjur sveitarfélagsins 2.254,2  milljónum króna. Samsvarar það til  70% af áætluðum rekstrartekjum ársins. Rekstrartekjur A-hluta námu þar af 1.797,2 milljónum króna eða 72% af áætluðum tekjum ársins 2006. Útsvarstekjur í A-hluta eru nokkuð hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir og er ástæðan uppbygging álvers Alcoa Fjarðaáls, sem skilar sér í hærri rekstartekjum sveitarfélagsins segir í tilkynningu.

Rekstrargjöld sveitarfélagsins fyrstu átta mánuðina námu 1.702,9 milljónum króna sem er um 67% af áætuðum gjöldum ársins. Þar af var launakostnaður 927,9 milljónir og annar rekstarkostnaður 613 milljónir. Rekstrargjöld A-hluta námu 1.425,7 milljónum þar af var launakostnaður 879,1 milljónir og annar rekstarkostnaður 484,3 milljónir.

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins að teknu tilliti til fjármagnsliða var jákvæð um 75,3 milljónir. Í A-hluta var rekstrarniðurstaða jákvæð um 160,5  milljónir Uppgjörið sýnir mikinn bata í rekstri sveitarfélagsins en samkvæmt átta mánaða uppgjöri frá árinu áður þá var rekstrarniðurstaðan neikvæð um 2,1 milljón  í samstæðu og 28,7 milljónir í A hluta. Útgjöld hafa haldist samkvæmt áætlun og tekjur verið hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Veltufé frá rekstri nam 637 milljónum og handbært fé frá rekstri 526,2 milljónum. Heildareignir Fjarðarbyggðar námu 7.153,8 milljónum króna,þar af voru fastafjármunir 6.451,8 milljónir. Eigið fé sveitarfélagsins nam 659,5 milljónum króna í lok ágústmánaðar.