Rekstrarhagnaður Norðlenska matborðsins ehf. fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) á árinu 2005 nam röskum 228 milljónum króna, sem er tæplega 87 milljóna króna afkomubati frá árinu 2004. Þetta kom fram á aðalfundi Norðlenska á Akureyri þann 4. maí síðastliðinn.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að rekstrarhagnaður ársins 2005 nam 14,5 milljónum króna að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsgjalda en tap var upp á 52 milljónir króna árið 2004, sem er því um 70 milljóna króna rekstrarbati milli ára

Síðustu fimm ár hefur afkoma Norðlenska jafnt og þétt verið að batna og gert er ráð fyrir að á yfirstandandi ári haldi rekstrarbatinn áfram og efnahagur fyrirtækisins styrkist enn frekar, segir ennfremur í tilkynningunni.

Heildarvelta Norðlenska á síðasta ári var um 2.600 milljónir króna, samanborið við 2.400 milljónir króna árið 2004. Veltufé frá rekstri nam 127 milljónum króna og jókst um 37 milljónir frá fyrra ári. Eigið fé fyrirtækisins í árslok var 349 milljónir króna og eiginfjárhlutfall 16,3%.

Heildarhlutafé í Norðlenska er 550 milljónir króna. Hluthafar í félaginu eru: KEA með 250 milljóna króna hlutafé (45,45%), Búsæld -- framleiðendafélag, en að því eiga aðild um 530 innleggjendur á starfssvæði Norðlenska, 217 milljónir (39,4%), Samvinnutryggingar 40 milljónir (7,27%), Akureyrarbær 30 milljónir (5,45%) og Húsavíkurbær 13 milljónir (2,36%).