Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, sem kynnt var í dag gerir ráð fyrir rúmlega 13,7 milljarða króna rekstarafgangi á næsta ári samanborið við rúmlega 1 milljarðs króna halla á þessu ári. Helstu ástæður fyrir viðsnúningi nú, eru að áætlað er að skatttekjur hækki en rekstargjöld lækki.

Ársreikningur Reykjavíkurborgar skiptist í A og B hluta. Til A-hluta telst Borgarsjóður en til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem eru að hálfu eða meirihluta í eigu borgarinnar. Þessi fyrirtæki eru til dæmis Bílastæðasjóður, Sorpa bs., Strætó bs., Orkuveita Reykjavíkur og Faxaflóahafnir.

Heildartekjur A-hluta eru áætlaðar 52.174 milljónir króna samanborið við 49.110 milljónir á þessu ári, sem er 6,2% hækkun milli ára. Rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði eru áætluð 50.593 milljónir samanborið við 52.799 milljónir á þessu ári sem er 4,2% lækkun milli ára.

Gert er ráð fyrir að handbært fé frá rekstri verði 2868 milljónir samanborið við 2047 milljónir á þessu ári, sem er 40% hækkun milli ára. Gert er ráð fyrir að bókfærðar heildareignir nemi 78.203 milljónum í lok næsta árs samanborið við 88.761 milljón í útkomuspá þessa árs sem er lækkun um 11,9%. Lækkunin skýrist af sölu eignarhluta Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun en andvirði sölunnar var ráðstafað til Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar.

Heildarskuldir án lífeyrisskuldbindingar eru áætlaðar 14.283 milljónir samanborið við 15.064 milljónir í útkomuspá þessa árs sem er 5,2% lækkun á milli ára.

Í samstæðureikningi Reykjavíkurborgar sem nær yfir A og B hluta er gert ráð fyrir að heildartekjur verði 79,6 milljarðar samanborið við 74,8 milljarða í útkomuspá 2006 sem er 6,5% hækkun milli ára. Rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði eru áætluð 72.milljarðar samanborið sem er 3% lækkun milli ára.