"Íslenska krónan hefur staðið sig mjög vel frá árámótum og betur en flestir aðrir gjaldmiðlar. Þetta er athyglisvert þar sem að íslenska hagkerfið er velþekkt fyrir mikið ójafnvægi og þenslu. Síðustu daga höfum við þó séð þessa þróun snúast við og íslenska krónan hefur veikst nokkuð. Þetta kemur okkur ekki á óvart og við teljum að sá möguleiki sé fyrir hendi að fjárfestar muni nú losa um stöður sínar í krónunni sem mun valda því að hún veikist ennþá meira á komandi mánuðum," segir Lars Christensen sérfræðingur hjá greiningu Danske Bank í nýrri greiningu bankans um þróun íslensku krónunnar sem gefin var út í dag.


Þá segir Lars að tveir þættir séu sérstaklega mikilvægir fyrir þessa þróun krónunnar. "Í fyrsta lagi er íslenska módelið byggt á herskáum skuldsettum yfirtökum og kaupum íslenskra fyrirtækja. Því má segja að Ísland sé fyrsta hagkerfið í heiminum sem byggir undirstöður sínar á skuldsettum kaupum fyrirtækja og eigna. Á þeim sögulegu tímum sem aðgangur að lánsfé hefur verið greiður og lánsfé tiltölulega ódýrt í sögulega samhengi hefur þetta módel reynst vel. Nú hefur hinsvegar veður skipast í lofti og vegna aðstæðna á bandaríska fasteignamarkaðinum gæti þetta tímabil verið á enda. Þessi nýi veruleiki mun verða íslenska hagkerfinu sérstaklega erfiður og gera alla fjármögnun hagkerfisins erfiðari.


Í öðru lagi hefur Íslenska krónan verið vinsæl í vaxtarmunarviðskiptum. Í september eru stórir gjalddagar krónubréfa en þá falla á gjalddaga allt að 80 milljarðar króna og aðrir 70 milljarðar í janúar á næsta ári. Vegna breyttra aðstæðna í alþjóðahagkerfinu gætu þessir gjalddagar skapað mikinn þrýsting á íslensku krónuna.