„Þessar tölur um stöðu og horfur í fjármálum sveitarfélaga tákna auðvitað ekkert annað en hrun þegar á heildina er litið,“ sagði Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, þegar hann brá upp á tjald upplýsingum um afkomu sveitarsjóða landsins í ár og á næsta ári á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna.

Viðsnúningur frá árinu 2007 er með ólíkindum og Karl sagði að afkoman í fyrra  væri ekki hæf til samanburðar af neinu tagi nú.

Framkvæmdastjórinn gerir ráð fyrir að sveitarfélögin skili ríflega 15 milljörðum króna framlegð á árinu 2008, sem svarar til 9% af tekjum. Þegar fjármagnsliðir eru teknir inn í myndina blasir við rekstrarhalli upp á 4,3 milljarða króna, sem svarar til 3% af tekjum.

Mun svartara er útlitið hins vegar á árinu 2009: rekstrarhalli upp á 30 milljarða króna, sem svarar til fimmtungs af tekjum sveitarfélaganna.

Hann býst við að afkoma sveitarfélaganna verði lítið eitt skárri 2010 og lagist ögn frekar 2011. Jafnvægi verði ekki náð fyrir en 2012.

Karl Björnsson velti upp ýmsum möguleikum til að bregðast við vandanum en dró dul á að einhver sveitarfélög, sem eiga afkomu sína að miklu leyti undir Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og eru jafnframt í fjárhagserfiðleikum, myndu trúlega lenda í forsjá eftirlitsnefndar og ráðuneytis á næsta ári. Önnur muni þrauka en örfá „fara létt í gegnum kreppuna“.