Hlutabréfamarkaðir í Evrópu hækkuðu í dag eftir að hafa á flestum stöðum lækkað í morgun.

Við opnun markaða í Bandaríkjunum hækkuðu hlutabréf sem hafði jákvæð áhrif á markaði í Evrópu að sögn Reuters fréttastofunnar.

FTSEurofirst 300 vísitalan hækkaði í dag um 2,5% eftir að hafa lækkað um tæpt prósent í morgun.

Það voru lyfjafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins að sögn Reuters. Þannig hækkaði GlaxoSmithKline um 5%, Roche um 6,5% og Novartis um 7,5%.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan 2%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 3,9% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 2,4%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan 2,3% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 5,3%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 2,5%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan hins vegar um 0,6% en í Osló hækkaði OBX vísitalan um 4,6%