*

laugardagur, 31. október 2020
Frjáls verslun 20. maí 2018 14:05

Vissi ekki að stjórnin væri bitlingur

Margrét Guðmundsdóttir, formaður stjórnar N1, hvetur stjórnvöld til að fylgja fordæmi einkageirans við val á stjórnarmönnum.

Gunnar Dofri Ólafsson
Þröstur Njálsson

Margrét segir það faglega ferli sem tíðkast við val á stjórnarmönnum í einkageiranum vera gjörólíkt því sem gengur og gerist í fyrirtækjum í opinberri eigu. Margrét var þangað til nýlega í stjórn ISAVIA, en eins og fram hefur komið er stjórn fyrirtækisins skipuð með pólitískum hætti.

„Ég gerði mér á þeim tíma enga grein fyrir að þessi stjórn væri í raun pólitískt skipuð. Ég fann út úr því þegar ég var komin inn. Mér finnst – og þetta hefur ekkert með mína persónu og þá stjórn sem ég sat í í ISAVIA að gera, sú stjórn var frábær – að stjórnsýslan ætti að ganga á undan með góðu fordæmi og vera með tilnefningarnefndir því þessu fylgir svo mikil ábyrgð. Þannig væri hægt að taka pólitíkina úr þessu.“

Það er kannski að einhverju leyti samt þannig að pólitíkin sé verst þegar kemur að svona skipunum. Einkageirinn virðist hafa áttað sig á að honum vegnar best með sem fjölbreyttasta og faglegasta stjórn á meðan pólitíkin mannar stjórnir með vinum sínum úr flokknum. Deilirðu þessari tilfinningu?

„Já, að vissu leyti. Ég las í blöðunum þegar ég kom inn í stjórn ISAVIA að þar væri verið að berjast um bitlinga. Bitlinga? Var ég að fá einhvern bitling? Fyrir það fyrsta voru stjórnarlaunin þarna mjög lág og ekki í samræmi við ábyrgðina. Verkefnið var hins vegar óheyrilega áhugavert. Þetta fyrirtæki hefur svo mikil áhrif á allt þjóðfélagið. Ég sit í stjórn Heklu þar sem við seljum meðal annars bílaleigubíla. Það ræðst mikið til af komu ferðamanna. Sama hjá N1 með allar stöðvarnar úti á landi. Þannig að mitt ráð varðandi opinber hlutafélög er að taka pólitíkina úr þessu, hafið tilnefningarnefndir og veljið mjög hæft fólk í stjórn. Forstjóri og framkvæmdastjórn þurfa rekstrarlegan stuðning og aðhald frá stjórn miklu frekar en pólitískan.“

Þú talar um þroskaferli stjórna og stjórnunarhátta. Hvenær finnst þér þetta ferli hafa fyrir alvöru hafist á Íslandi?

„Ég held að það hafi gerst á þrennan hátt. Útrásin hafði sitt að segja. Margir stjórnendur íslenskra fyrirtækja kynntust þá stjórnarstarfi erlendis. Einnig hafi margir íslenskir stjórnendur starfað erlendis í alþjóðlegum fyrirtækjum og taka þá reynslu með sér heim. Í þriðja lagi með kynjakvótanum. Sérstaklega vegna þess að ég man eftir fyrir nokkrum árum að það var sagt við mig inni í Kauphöll hvað það væri áhugavert að þar sem væru óháðir stjórnarmenn í stjórnum þá væru konurnar alltaf þessi óháði stjórnarmaður. Þær koma inn sem faglegir stjórnendur. Í þessari greiningu minni komst ég að því að konur sem veljast í stjórn eru mjög vel menntaðar með fína reynslu og í sumum fyrirtækjunum hafa verið erlendar stjórnarkonur. Ég er ekki að segja að þessi þróun hafi verið beint konunum að þakka, en þetta var ákveðin áminning um að hugsa hlutina upp á nýtt.“

Nánar er fjallað um málið í nýju tölublaði Frjálsrar verslunar. Hægt er gerast áskrifandi með því að senda tölvupóst á netfangið askrift@vb.is.