Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra, segist ekki hafa vitað af þeirri ákvörðun að Seðlabanki Íslands myndi greiða málskostnað Más Guðmundssonar seðlabankastjóra vegna deilu um laun sem fór fyrir dómstóla. Þetta kemur fram á vef RÚV . Katrín svaraði fyrirspurn á Alþingi um málskostnaðinn í nóvember 2012 þegar málið var rekið fyrir Hæstarétti. Ásmundur Einar Daðason , þingmaður Framsóknarflokksins, rifjaði þetta upp en Katrín svaraði þá að samkvæmt dómi Héraðsdóms bæri hvor aðili kostnað fyrir sig.

Katrín segir að hún viti ekki hvort ákvörðunin hafi verið tekin í sinni tíð. Þá segir hún fyrirvara hafa verið skýran í svari hennar um málið. „Þarna var verið að veita bestu mögulegu upplýsingar á þessum tíma, þ.e.a.s. um þremur mánuðum áður en dómur féll í Hæstarétti og málinu endanlega lokið. Þannig að þeir mega svosem sprikla með það að ég hafi gefið rangar upplýsingar en aðrar upplýsingar voru ekki til á þessum tíma."