Geir H. Haarde forsætisráðherra segir í skriflegu svari sínu til Sivjar Friðleifsdóttur á Alþingi í dag að hann hafi ekki vitað af tilboði breska fjármálaeftirlitsins (FSA) vegna Icesave-reikninganna fyrir setningu neyðarlaganna.

Honum er heldur ekki kunnugt um að embættismenn eða ráðgjafar hans hafi haft slíka vitneskju.

Þar með hafa viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra og forsætisráðherra svarað því neitandi að þeir hafi haft vitneskju um umrætt tilboð FSA um að færa Icesave undir breska lögsögu.

Seðlabankinn neitar líka

Björgólfur Thor Björgólfsson fullyrti hins vegar í Kompás-þætti Stöðvar 2 fyrr í vetur að degi áður en neyðarlög voru sett hér á landi hafi FSA boðist til að taka Icesave-reikninga Landsbankans undir breska ábyrgð á fimm dögum gegn 200 milljóna punda tryggingu.

Landsbankamenn og þar á meðal Björgólfur Thor vilja meina að hefði slíkt tilboð verið samþykkt hefði mátt spara þau vandræði sem síðar urðu vegna Icesave.

Seðlabankinn sagði í yfirlýsingu fyrr í vetur að Landsbankinn hefði í bréfi 6. október óskað eftir 200 milljóna punda fyrirgreiðslu en í beiðninni hefði hvergi verið minnst á flýtiafgreiðslu FSA.

Seðlabankinn hafnaði beiðninni.