Í afhjúpun Wall Street Journal á innanhússkjölum úr röðum samfélagsmiðlarisans Facebook, sem fréttamiðillinn komst yfir, kemur ýmislegt athyglisvert fram. Þar segir m.a. að í rannsókn sem samfélagsmiðillinn Instagram, sem er í eigu Facebook, lét framkvæma hafi komið fram að þegar 32% táningsstúlkna hafi liðið illa með líkama sinn, hafi Instagram kynnt enn frekar undir vanlíðan þeirra.

Þessar upplýsingar eiga að hafa verið birtar í mars síðasta ári inni á innra samskiptakerfi Facebook sem aðeins er aðgengilegt starfsmönnum. Þar hafi jafnframt komið fram að samanburður á Instagram geti haft áhrif á hvernig ungar konur líta á og lýsa sjálfum sér.

Ku rannsókn þessi, sem ætlað var að varpa ljósi á hvaða áhrif Instagram hafi á milljónir ungra notenda sína, hafa hafist fyrir um þremur árum síðan. Síendurtekið hafi rannsakendur komist að því að Instagram hafi slæm áhrif á drjúgan hluta notenda, þá helst táningsstúlkur.

„Við stuðlum að verri líkamsímynd hjá þriðjungi táningsstúlkna,“ segir til að mynda á einni glæru rannsakenda um helstu niðurstöður rannsóknarinnar sem birt var á innra samskiptasvæði starfsmanna Facebook árið 2019.

„Táningar kenna Instagram um aukna tíðni kvíða og þunglyndis,“ sagði á annarri glæru og „Þessi skoðun var þvert á alla hópa,“ á enn annarri.

Önnur glæra sagði svo að á meðal táninga sem höfðu glímt við sjálfsvígshugsanir, röktu um 13% notenda í Bretlandi og 6% í Bandaríkjunum sjálfsvígshugsanir sínar til Instagram.

Táningsnotendur verðmætir

Það vill þó svo til að það er mjög mikilvægt fjárhagslega fyrir Instagram að ná til ungra notenda og að fjöldi þeirra á miðlinum fari sífellt fjölgandi - til þess að miðillinn haldi vinsældum sínum. Instagram halar inn um 100 milljörðum í tekjur á ársgrundvelli og því vildi samfélagsmiðillinn síður eiga á hættu að minnka skuldbindingu ungu notendanna til miðilsins með því að grípa til aðgerða.

Yfir 40% notenda Instagram eru 22 ára og yngri, og um 22 milljónir táninga opna Instagram í Bandaríkjunum á degi hverjum. Til samanburðar fara um 5 milljónir í sama aldurshóp inn á Facebook á degi hverjum. Ungum notendum Facebook hefur fækkað smátt og smátt undanfarinn áratug. Að jafnaði eyða táningar í Bandaríkjunum um 50% meiri tíma á Instagram en á Facebook. Instagram er því gríðarlega mikilvæg tenging fyrir Facebook við ungt fólk.

Hafa gert lítið úr umræðu um neikvæð áhrif Instagram

Á opinberum vettvangi hefur Facebook ítrekað gert lítið úr umræðu um neikvæð áhrif Instagram á unglinga. Þá hefur fyrirtækið ekki gert þá rannsókn sem að ofan hefur verið fjallað opinbera og ekki afhent fræðimönnum eða löggjafanum afrit af rannsókninni er leitast hefur verið eftir því.

„Þær rannsóknir sem við höfum komist yfir benda til þess að notkun samfélagsmiðla til að tengjast öðru fólki geti haft jákvæð áhrif á andlega heilsu,“ sagði Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, á fundi með þingnefnd Bandaríkjaþings í mars á þessu ári, inntur eftir viðbrögðum við umræðu um skaðleg áhrif samfélagsmiðla á andlega heilsu barna.

Þá sagði Adam Mosseri, stjórnandi hjá Instagram, fréttamönnum í maí sl. að rannsóknin hafi leitt í ljós að áhrif samfélagsmiðilsins á velferð unglinga væri að öllum líkindum smávægileg.

Nánar má lesa um ofangreinda afhjúpun Wall Street Journal hér , en umrædd afhjúpun er sú önnur í röðinni sem unnin eru upp úr innanhússkjölum Facebook. Fyrsta afhjúpunin fjallar m.a. um að ekki hafi allir verið jafnir fyrir reglum Facebook , þrátt fyrir yfirlýsingar samfélagsmiðlarisans um að á samfélagsmiðlinum væru allir jafnir. Sú þriðja fjallar svo um að tilraun Facebook til að gera samfélagsmiðilinn jákvæðari hafi snúist upp í andhverfu sína því breytingin varð til þess að notendur urðu neikvæðari.

Gera má ráð fyrir að fleiri afhjúpanir fylgi í kjölfarið.