Bankastjóri Landsbankans viðurkennir að líklegast hafi bankinn gleymt að spyrja út í veigamikla þætti varðandi sölu á hlut bankans í Borgun til stjórnenda fyrirtækisins.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag sem vísar í drög að skýrslu Ríkisendurskoðunar á eignasölu Landsbankans á síðustu árum.

Selt fyrir 2 milljarða en átti eign fyrir 9 milljarða

Bankinn seldi 31,2% hlut sinn í Borgun fyrir tæpa 2,2 milljarða króna án þess að gera ráð fyrir aðild félagsins að Visa Europe en ári eftir að skrifað var undir söluna kom í ljós að sala á eignarhlutnum í því fyrirtæki skilaði Borgun um 9 milljörðum króna.

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans sagði á fundum með Ríkissendurskoðun fyrr í haust við undirbúning skýrslunnar að bankinn hafi gert mistök.

Kunni það að vera „einhvers konar blindu“ um að kenna þar sem starfsmenn bankans hafi talið starfsemi Borgunar aðeins tengjast kortarisanum Mastercard. Eina þjónustan sem bankinn keypti af Borgun hafi verið í tengslum við útgáfu Mastercard korta.

Einungis kaupendur áttu að gera áreiðanleikakönnun

Í skýrslunni er það sagt sæta furðu vegna mikilla hagsmuna bankans af sölunni, að einungis fulltrúar kaupenda hafi átt að vinna laga- og tæknilega áreiðanleikakönnun á Borgun.

Jafnframt kemur fram að í söluferlinu hafi Borgun tvívegis opnað svokallað gagnaherbergi svo starfsmenn Landsbankans og fulltrúar kaupendahópsins gætu gert áreiðanleikakannanir sínar.

Fyrra herbergið var opið milli 14. ágúst 2014 til 3. mars 2015 en í kjölfar þess að kauptilboð milli aðila var undirritað 24. október 2014, var nýtt gagnaherbergi opnað þann 30. október.

Upplýsingar um eignarhlut í gagnaherbergi sem bankinn nýtti ekki

Í febrúar síðastliðnum sendi Borgun frá sér yfirlýsingu þar sem segir að í þessu síðara gagnaherbergi hafi komið fram upplýsingar um eignarhald Borgunar í Visa Europe og sömuleiðis um valréttarákvæði milli Visa Inc. og Visa Europe.

Samkvæmt skýrslunni hefur Landsbankinn hins vegar viðurkennt að hafa aldrei skoðað þau gögn sem voru lögð fram í þessu síðara gagnaherbergi, enda hafi það aldrei staðið til að sögn fulltrúa bankans. Áfellist Ríkisendurskoðun bankann fyrir að hafa ekki nýtt sér þennan aðgang.

Fyrrnefnd viðurkenning stangast þó á við fullyrðingar Landsbankans í svari sem bankinn sendi Ríkisendurskoðun í lok júní síðastliðins, þar fram kemur að líklegast hafi gögnin um aðild Borgunar að visa Europe komið fram, eftir að aðgangi fulltrúa Landsbankans að gagnaherberginu hafði verið lokað þann 3. nóvember 2014.