Vísitala neysluverðs í febrúar 2007 er 268 stig og hækkaði um 0,41% frá fyrra mánuði, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 245,3 stig, óbreytt frá janúar. Í kjölfarið hækkar tólf mánaða verðbólga hækkar því úr því að vera 6,9% í að vera 7,4% nú.

Greiningaraðilar bjuggust við að verðbólga myndi hækka um 0,2% og að tólf mánaða verðbólga yrði 7,2%.

Greiningaraðilar telja þó að um sé að ræða tímabundna hækkun verðbólgu en síðustu mánuði hefur verðbólga hjaðnað mikið frá því sem mest var en tólf mánaða verðbólga mældist 8,6% í ágúst síðastliðinn.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 7,4% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 6,2%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,7% sem jafngildir 2,9% verðbólgu á ári (0,5% verðbólga fyrir vísitöluna án húsnæðis).

Áhrifa vetrarútsalna gætir enn og lækkaði verð á fötum og skóm um 4,1% af þeim sökum (vísitöluáhrif -0,17%).

Kostnaður vegna eigin húsnæðis hækkaði um 1,8% (0,41%), þar af voru áhrif af hækkun markaðsverðs 0,27%, 0,06% af hækkun vaxta og 0,08% vegna hækkunar á viðhaldsliðnum.

Verð á mat og drykkjarvörum var nánast óbreytt milli mánaða, hækkaði um 0,2% (0,02%).

Vísitala neysluverðs í febrúar 2007, sem er 268,0 stig, gildir til verðtryggingar í mars 2007. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 5.292 stig fyrir mars 2007.