Ákvörðun sóttvarnalæknis um að vista einstaklinga sem komu til landsins frá áhættusvæðum í farsóttarhúsi hefur verið úrskurðuð ólögmæt í öllum þremur kærumálunum sem tekin voru fyrir. Niðurstaðan er bundin við þá einstaklinga sem sóttu málin, enda hafi þeir sýnt fram á að þeir gætu sinnt sóttkví heima hjá sér. Niðurstöðu vegna tveggja sambærilegra kærumála er enn beðið.

Í greinargerð sóttvarnalæknis, það er Þórólfs Guðnasonar, hvar hann krefst staðfestingar ákvörðunar sinnar, kemur fram að hann og heilbrigðisráðherra, það er Svandís Svavarsdóttir, meti tilgang frelsisskerðandi aðgerða lögmætan og í samræmi við meðalhóf. Aðgerðirnar hafi byggt á heimild í lögum og fari ekki í bága við ákvæði stjórnarskrár.

Héraðsdómur segir aftur á móti í niðurstöðu sinni ákvæði reglugerðar heilbrigðisráðherra skorta lagastoð og þar með hafi ákvörðun sóttvarnalæknis gengið lengra en lög heimila.

Ólíklegt er að kærurnar fái efnismeðferð fyrir Landsrétti, enda mun ástandið hafa runnið sitt skeið þegar kærurnar verða teknar fyrir og lögvarðir hagsmunir kærenda sömuleiðis.

Viðskiptablaðið hefur úrskurðinn undir höndum og verður hann nánar rakinn innan skamms.