Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Brussel og aðalsamningamaður Íslands í aðildaviðræðum við ESB, segir að verkefnið nú sé verkefni alrar þjóðarinnar.

Stefán Haukur er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

„Ég held að menn þurfi fyrst og fremst að líta fram á veginn og núna erum við að fara inn í þetta ferli,“ segir Stefán Haukur.

„Þetta er ekki bara verkefni stjórnvalda og þeirra hagsmunaaðila sem taka þátt í gegnum samningahópana heldur er þetta verkefni allrar þjóðarinnar. það er eitt af markmiðunum að stuðla að upplýstri og opinni umræðu. Það er ekkert einsdæmi að þessi verkefni séu umdeild. það þekkja menn mjög vel innan ESB og í þeim ríkjum þar sem þessi skref hafa verið tekin hefur það oft og tíðum verið mjög umdeilt.“

Stefán Haukur minnir á að í þingsályktunartillögunni umræddu sé lögð rík áhersla á gegnsæi í umsóknarferlinu og hann muni gera sitt til að svo geti orðið. Þannig muni samninganefndin miðla upplýsingum til almennings og hagsmunaaðila en þá muni Alþingi einnig spila stórt hlutverk í því að upplýsa almenning um gang mála.

Sviss hefur stöðvar umsókn

Um síðustu helgi samþykkti landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktun þess efnis að draga ætti aðildarumsókn að ESB til baka. Á sama tíma lagði flokksráð VG til að málið yrði tekið til alvarlegrar endurskoðunar snemma í haust. Blaðamaður þykist vita að Stefán Haukur vilji ekki blanda sér í pólitískar umræður en leggur samt fyrir tæknilegar spurningu um það hvort að það hafi gerst áður að ríki hafi dregið umsókn sína til baka á þessu stigi og hvaða afleiðingar það kann að hafa.

„Ég tel nokkuð víst að ekkert ríki hafi dregið umsókn sína til baka. Að vísu setti Sviss umsóknina sína á ís, en þar verður að hafa í huga að Svisslendingar voru nýbúnir að hafna EES samningnum, sem sagt við mjög ólíkar aðstæður,“ segir Stefán Haukur.

„Í raun mætti segja að Svissneska þjóðin hafi átt lokaorðið í þjóðaratkvæðagreiðslu og fellt samning sem við byggjum á í okkar umsókn. Ég vil fara varlega í að bollaleggja um áhrif þess að slíkt skref yrði tekið en bendi á að umsókn Íslands hefur verið tekið mjög vel og ESB löndin telja okkur eiga fyllilega heima í þessum sambandi ef við kjósum svo“

-Nánar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.