Ljóst þykir að íslensku flugfélögin þurfa á næstu vikum og mánuðum að ráðast í sambærilegar hagræðingaraðgerðir og erlend flugfélög hafa gert að undanförnu til að mæta verðhækkunum á eldsneyti. Nú þegar greiða farþegar eldsneytisgjald en einnig eru í skoðun margvíslegar aðgerðir til að draga úr kostnaði og/eða auka tekjur, þar á meðal að létta vélar, rukka töskugjald, draga úr tíðni ferða, fækka áfangastöðum og hækka miðaverð. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, boðaði í viðtali við Viðskiptablaðið um liðna helgi verulegar hækkanir á verði flugfarseðla. Þá hefur félagið einnig ákveðið að fækka áfangastöðum.

Meðal annars verður ekki flogið til Toronto, Minneapolis og Halifax í haust, ekki verður heilsársflug til Berlínar eins og gert var ráð fyrir og einnig verður skerðing á flugi til Parísar

Eldsneytiskaup að verða 35% af rekstrarkostnaði

Björgólfur segir að innan félagsins sé verið að skoða víðtækar hagræðingaraðgerðir og í því ferli séu allir möguleikar kannaðir með það að markmiði að gera rekstur félagsins arðbærari.

Lausafjárþurrð á markaði geri Icelandair, eins og öðrum fyrirtækjum, erfitt fyrir en hækkanir á eldsneytisverði valdi einnig erfiðleikum. Nú stefni brátt í að hlutfall eldsneytiskostnaðar af rekstrarkostnaði fari upp í 35% en hefur verið um fjórðungur af rekstrarkostnaði til þessa. „Miðað við eldsneytisverðið núna liggur ljóst fyrir að flug muni hækka, hvort sem það fer beint í miðaverðið eða einhvern hliðarkostnað,“ segir Björgólfur.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í úttekt í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .