Borgun, American Express og Icelandair hafa náð samkomulagi um sameiginlegt markaðsátak til að fjölga komum erlendra ferðamanna til Íslands með því að hvetja milljónir American Express korthafa frá ýmsum löndum Evrópu til að heimsækja landið að því er kemur fram í tilkynningu.

Átakið, sem nú er hafið, kallast “Discover Iceland” og stendur til 30. apríl 2009. Átakið er samstarfsverkefni Borgunar, þjónustuaðila American Express á Íslandi, Icelandair og Kreditkorta, sem er útgefandi American Express korta á Íslandi. Átakið beinist að því að vekja athygli American Express korthafa á sérstæðri náttúru og ferðamannastöðum á Íslandi um leið og kynnt verða hagstæð flugfargjöld og gistimöguleikar, auk afslátta hjá bílaleigum, verslunum og veitingastöðum víðsvegar á landinu.

Discover Iceland verður kynnt milljónum American Express korthafa í Evrópu eftir hefðbundnum leiðum í beinni markaðssetningu. Kynningarefni verður sent korthöfum American Express víða í Evrópu þar sem tilboð á vetrarferðum til Íslands verða tíunduð og þeim boðið að upplifa allt það besta sem Ísland hefur upp á að bjóða; einstakar náttúruperlur, veitingastaðir á heimsmælikvarða og einstök verslunartækifæri. Einnig verður opnaður sérstakur kynningarvefur um átakið sem verður aðgengilegur á ensku, rússnesku, frönsku, þýsku og ítölsku.

„Okkur er það mikil ánægja að fá tækifæri til að taka þátt þessu í átaki og stuðla með því að fjölgun ferðamanna til Íslands á þessum erfiðu tímum. Handhafar American Express korta eru hvarvetna eftirsóttir viðskiptavinir, enda þekktir fyrir góð fjárráð og mikla kaupgetu. Átakið mun án nokkurs vafa auka veltu hjá seljendum vöru og þjónustu sem taka við American Express kortum og sem eru tilbúnir að veita korthöfum góða afslætti og vildarpunkta.  Við lítum svo á að með því að fjölga komum erlendra ferðamanna hingað til lands leggjum við okkar af mörkum til að auka flæði gjaldeyris til landsins og styrkjum þar með efnahag þjóðarinnar. Með þessu átaki viljum við jafnframt styðja ímynd Íslands sem eins eftirsóttasta áfangastaðar í heimi. Átakinu verður í fyrstu beint að Evrópskum ferðamönnum en jafnframt eru áform um að síðar verði það víkkað út til landa utan Evrópu," segir Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar. í tilkynningu.

„Við hjá Icelandair erum að vinna að fjölgun ferðamanna á mörgum vígstöðvum og með fjölbreyttum aðferðum. Þetta verkefni er mikilvægt skref í viðleitni okkar til að auka straum ferðamanna til Íslands,“ segir Helgi Már Björgvinsson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair.  „Icelandair ræður yfir umfangsmiklu söluneti í Evrópu og Norður Ameríku og þetta er verðmæt viðbót við sókn okkar á hinum mismunandi mörkuðum.“