Fulltrúar Og Vodafone og Orkuveitu Reykjavíkur hafa undirritað samning um stóraukna ljósleiðaravæðingu heimilanna og gagnaflutningsþjónustu fyrir fyrirtæki. Í samningnum felst einnig að Orkuveita Reykjavíkur sérhæfir sig í rekstri og áframhaldandi uppbyggingu ljósleiðarakerfa. Og Vodafone einbeitir sér hins vegar að markaðssetningu, vöruþróun og þjónustu við viðskiptavini, m.a. á ljósleiðaratengingum. Samkomulagið er í meginatriðum þríþætt:

Orkuveita Reykjavíkur kaupir hlut Og Vodafone í ljósleiðarakerfinu á höfuðborgarsvæðinu og til Vestmannaeyja og annast rekstur og áframhaldandi uppbyggingu og þróun þess.

Og Vodafone kaupir hlut Orkuveitu Reykjavíkur í Línu.Neti, tekur yfir IP þjónustu fyrirtækisins og sinnir sölu- og markaðssetningu gagnaþjónustu.
Fyrirtækin vinni að þróun á gagnaveitum fyrir heimili enda eru framundan miklir möguleikar á samþættingu sjónvarps- og símaþjónustu.

"Við höfum þegar hafið undirbúning að útsendingum á sjónvarpsefni um ADSL kerfi Og Vodafone. Þessi þjónusta flyst yfir á ljósleiðara í náinni framtíð. Þá höfum við áform um markaðssetningu á margvíslegri annarri þjónustu til fyrirtækja sem byggir á ljósleiðaratækni. Okkur er því mikilvægt að fá aukinn aðgang að meiri bandvídd og hana er að finna í ljósleiðurum Orkuveitunnar. Samningurinn við Orkuveituna um þróun, mótun, uppbyggingu og rekstur ljósleiðarakerfis til heimila og fyrirtækja, er því lykilatriði í þjónustu okkar til framtíðar," segir Eiríkur S. Jóhannsson, forstjóri Og Vodafone í tilkynningu frá félaginu.

"Samfara auknu mikilvægi, fjölbreyttari og vaxandi gagnaflutningum er nauðsynlegt að búa til öflugri gagnaveitu. Fjarskiptafyrirtækjum eins og Og Vodafone og Línu.Neti hefur á síðustu árum tekist að stórlækka verð á fjarskiptaþjónustu til Reykvíkinga og allra landsmanna. Orkuveita Reykjavíkur hefur nú skuldbundið sig til að reka og halda áfram uppbyggingu ljósleiðaranets sem tryggir samkeppni og aðgang smásöluaðila að traustu og öflugu ljósleiðaraneti og auðveldar þeim til framtíðar að bjóða viðskiptavinum sínum upp á hagstætt verð, aukið öryggi og fjölbreyttari fjarskiptaþjónustu," segir Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur í sömu tilkynningu.