EES-samningurinn er grundvöllur viðskipta Íslendinga á Evrópumarkarkaði. Hann tryggir aðild að markaðinum og um leið að þeim starfsskilyrðum, sem þar hafa verið mótuð. Þetta segir Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í tilefni hugmynda Ragnars Árnasonar prófessors, sem komu fram í viðtali í Viðskiptablaðinu, um að tímabært sé að íhuga uppsögn samningsins. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.

Sveinn Hannesson sagði í hádegisfréttunum að það sé ekki góða hugmynd að mölva hornsteininn að íslenskum milliríkjaviðskiptum, eins og einn af helstu mönnum utanríkisráðuneytisins hafi orðað það nýlega. Verslunarskýrslur og tölur um inn- og útflutning sýni að Evrópumarkaður sé langmikilvægasti markaður Íslendinga.

Í raun séu Íslendingar aðilar að innri markaði Evrópu og í raun sé verið að leggja til að afnema þennan grundvöll án þess að vita hvað tæki við. Hann gefur lítið fyrir samanburð við Sviss. Sveinn segir að það hafi tekið Svisslendinga níu ár að gera tvíhliða viðskiptasamning, þar sem þeir hafi tínt upp nokkur atriði úr EEs-samningnum.

Sveinn vekur athygli á því að nýlega hafi tíu ríki bæst við Evrópusambandið. Auðvitað breyti sambandið um svip við það, en við það og með enn frekari stækkun minnka líkurnar á því að úr sambandinu verði einhvers konar sambandsríki.