Kaupmáttur Íslendinga er svipaður nú og árið 2004 en ekki 1993 eins og Heiðar Már Guðjónsson, hagfræðingur hélt fram í Morgunblaðinu í gær. Þetta kemur fram í greinargerð hagfræðinganna Bjarna Geirs Einarssonar og Jósefs Sigurðssonar sem þeir tóku saman vegna ummæla Heiðars Más. Þeir Bjarni Geir og og Jósef starfa við rannsóknar- og spádeild hagfræði- og peningastefnusviðs Seðlabankans en þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Þeir Bjarni Geir og Jósef halda því fram meðal annars að staðreyndavillur séu að finna í orðum Heiðars Más. Í útreikningum sínum leiðrétti hann bæði fyrir þróun verðlags og gengis en þannig sé gengisþátturinn tvítalinn því að gengisbreytingar hafi bein áhrif á verðbólgu í gegnum innflutning á erlendum vörum.Réttast sé hins vegar að líta til þróun kaupmáttar þegar þróun launa er skoðuð yfir tíma að sögn hagfræðinga Seðlabankans.

Sé þetta gert kemur í ljós að kaupmáttur sé nú sambærilegur við árið 2004 og 9,5% lægri en árið 2006. Einnig benda þeir á að meðaltal vísitölu neysluverðs fyrsta fjórðungs 2012 sé 95% hærra en meðaltal vísitölu neysluverðs ársins 2000. Því hafi verðbólga ekki hækkað um 130% eins og Heiðar Már hélt fram.

Tekið er fram að þetta eru skoðanir þeirra Bjarna Geirs og Jósefs en þurfi ekki endilega að endurspegla skoðanir Seðlabankans.