Gunnlaugur K. Hreinsson, framkvæmdastjóri GPG fiskverkunar á Húsavík, segir það mikinn misskilning að strandveiðar skapi störf. Þvert á móti sé fiskur sem þannig veiddur að miklu leyti fluttur beint úr landi og því hverfi störf. Frumvarp um fiskveiðistjórnun vegi að störfum í landi á landsbyggðinni.

Gunnlaugur segir í samtali við Morgunblaðið að bátum GPG sé yfirleitt beint til veiða á stærri fiski en þeim sem fæst með strandveiðum. „Við hér á norðausturhorninu höfum reynt að verja störfin í fiskvinnsluhúsunum. Þegar bankarnir ýttu kvótaverðinu upp eins og svo mörgu öðru féllu margir fyrir peningunum og vildu selja,“ segir Gunnlaugur og heldur áfram:

„Bátar margra þessara manna höfðu lagt upp hjá okkur og fiskurinn var allur unninn hér á horninu. Hér er fullt af fólki sem á allt sitt undir þessari atvinnu og þegar hætta var á að kvótinn færi úr byggðarlaginu var reynt að kaupa heimildirnar og það höfum við gert. Nú eru þessir sömu aðilar farnir að veiða aftur og veiða frítt. Megnið af strandveiðimönnum hér eru menn sem seldu frá sér fyrir fullt af peningum. Nú eiga þeir að fá aflaheimildir á silfurfati og taka þennan sama kvóta af okkur án endurgjalds.

Það er maður á Bakkafirði sem talaði um það í sjónvarpinu nýlega að það yrði að auka strandveiðikvóta og byggðakvóta og Bakkafjörður snerist um þetta. Hann sagði hins vegar ekki frá því að ég keypti af honum kvóta fyrir hundruð milljóna árið 2004. Hann fór með peningana til Akureyrar, en nú er hann kominn aftur til Bakkafjarðar og er á strandveiðum. Hann og fleiri vilja fá kvótann aftur sem ég keypti á sínum tíma."

Að sögn Gunnlaugs gremst fólki almennt að sjá menn sem seldu kvóta fyrir stórfé  komna á fullt í strandveiðum. Þótt allir viti að ekki sé um lögbrot að ræða telji fólk að vitlaust sé gefið.