Vitni funduðu með verjendum Hreiðars Más Sigurðssonar og Ólafs Ólafssonar, sem dæmdir voru í al-Thani málinu, fyrir aðalmeðferð málsins. Vitnin kynntu sér gögn málsins á skrifstofu verjendanna, en í dómnum kemur ekkert fram um hvaða vitni er að ræða.

Dómari segir að með þessari háttsemi hafi verið farið á svig við fyrirmæli í lögum um meðferð sakamála, auk þess sem sú háttsemi hafi verið til þess fallin að rýra trúverðugleika vitnanna. Þetta sé því aðfinnsluvert.

Eins og fram kom á VB.is fyrr í dag hlutu sakborningar í al-Thani málinu þunga dóma í Héraðsdómi Reykjavikur í dag. Björn Þorvaldsson saksóknari sagði í samtali við VB sjónvarp að brotin hefðu verið alvarleg og verðskuldað alvarlega dóma.