Ríkið ætti að selja hlut sinn í þýsku landsbönkunum (þ. landesbanken) fyrir árið 2015. Afskriftir og útlánatap landsbankanna í tengslum við hrunið á bandaríska undirmálslánamarkaðnum hefur sýnt fram á að þeir eru veikasti hlekkurinn í þýsku fjármálakerfi, segir í árlegri skýrslu hagfræðingaráðs ríkisstjórnarinnar.

Hagfræðingarnir sem skipa ráðið – og oftast eru nefndir „vitringarnir fimm“ – segja að landsbankarnir hafi ekki aðeins orðið fyrir hlutfallslega meiri skakkaföllum vegna lánsfjárkreppunnar en aðrir bankar, heldur séu þeir jafnframt óarðbærari í rekstri og viðskiptamódel þeirra gangi ekki upp til lengri tíma. Skýrslan var kynnt Angelu Merkel, kansla Þýskalands, á þriðjudaginn.

Hagfræðingarnir mæla einnig með uppstokkun í þýska sparisjóðakerfinu. Sagt er í skýrslunni að hinir ríkisreknu sparisjóðir skekki samkeppni á bankamarkaði; stjórnmálamenn, sem eiga sæti í stjórnum þeirra, beiti sparisjóðunum í pólitískum tilgangi. Það ætti að leyfa sparisjóðunum, sem eru 446 talsins, að fara á hlutabréfamarkað, sameinast – og selja allt að 49% hlutabréfa þeirra.

Þýskir bankar, þar á meðal opinberir útlánaveitendur, hafa þurft að afskrifa hjá sér 48,8 milljarða Bandaríkjadala frá því að lánsfjárkreppan hófst á fjármálamörkuðum í fyrrasumar, að því er fram kemur í skýrslu hagfræðinganna. Þýskir ríkisbankar á borð við WestLB og Bayerische Landesbank hafa afskrifað samtals 20,1 milljarð dala, eða sem nemur 43% af heildarafskriftum þýskra banka.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .