Rekstrarhagnaður Geest á árinu 2004 var 36,6 m.punda (4,2 ma.kr) sem er um 20% aukning frá árinu áður. Töluvert hefur hægt á vexti en félagið náði þó 5% vexti í undirliggjandi starfsemi í erfiðu árferði árið 2004. Vegna verðþrýstings frá stórmörkuðum hefur EBITDA framlegð farið lækkandi og var um 8,3% á síðasta ári segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Til að mæta lægri framlegð fór félagið í endurskipulagningu og sparnaðaraðgerðir og tókust þær vel þar sem sparnaður uppá 24 m.punda (2,8 ma.kr) náðist. Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum dróst saman um 14 m.punda og töluverð aukning er í frjálsu fjárflæði eða um 29 m.punda. Ónýtt afkastageta er í verksmiðjum Geest og ekki er talið að þörf sé á miklum fjárfestingum á næstunni.

Geest er með starfsemi utan Bretlands en þó eru 90% af tekjum félagsins frá Bretlandi. Bundnar eru vonir við að aðrir markaðir í Evrópu þróist í sömu átt og sá breski, en hann er lengst komin varðandi sölu tilbúinna rétta. Efnahagur Geest er mjög sterkur og dugar EBITDA ársins 2004 fyrir skuldum félagsins. Vegna afkomuviðvarana samkeppnisaðila Geest fyrr á árinu dró úr væntingum markaðsaðila með uppgjör félagsins. Afkomu Geest má þó telja viðunandi samanborið við helstu keppinauta og í ljósi erfiðra markaðsaðstæðna sem félagið starfar við.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.