Franska fjölmiðlasamsteypan Vivendi hefur staðfest kaup á tónlistarútgáfu þýsku fjölmiðlasamsteypunnar Bertelsmann AG, segir í frétt Dow Jones.

Kaupverðið er 1,63 milljarður evra (145 milljarðar króna), en fyrirtækið var metið á um 1,5 milljarð evra.

Með kaupunum verður Vivendi stærsti tónlistarútgefandi heims, og fer þar fram úr samkeppnisaðilunum EMI og Warner Music Group, segir í fréttinni.

BMG Music Publishing á útgáfuréttinn að meira en milljón laga með frægum listamönnum á borð við Coldplay og Beach Boys.